Það er ekki bara Lóan sem er vorboðinn hér á landi en fyrir svifvængjaflugmenn má segja að þegar fyrstu vængirnir fara að sjást á lofti þá sé vorið formlega komið.

Undanfarin misseri höfum við einblínt talsvert á svifvængjaflugið en það hefur kostað nokkrar fórnir þegar kemur að annari útivist eins og t.d. klettaklifrinu. Það er hinsvegar erfitt að ánetjast ekki flugsportinu enda gríðarlega mikið frelsi og áskorun sem felst í því að beisla vinda og uppstreymi lofts með létta "tusku" að vopni.

Veðurguðirnir hafa verið nokkuð brosmildir það sem af er sumri og við höfum reynt að nýta okkur það eins og tíminn leyfir. Tímabilið fór vel af stað en Óðinn náði t.a.m. sínu besta flugi í maí þegar hann flaug frá Undirhlíðum sunnan Hafnarfjarðar að Stokkseyri eða um 42.5 km í beinni línu. Margir vilja meina að vorið og snemmsumars sé besti tíminn fyrir langflug hér á landi en lengstu flugin hafa oftar en ekki komið á því tímabili í gegnum tíðina. Eflaust skýrist það á miklum hitamismun sem á sér stað milli dags og nætur.

Ýmsir staðir báru á góma, má þar nefna helstu staðina í kringum höfuðborgina eins og Hafrafell, Úlfarsfell, Helgafell og Esju, einnig Víkursvæðið, Seljalandsfoss, Herdísarvík, Snæfellsjökul og Undirhlíðar eins og áður var greint frá. Einnig var farið á Heklu sem var sérstaklega fjallað um "hér".

Hér að neðan er brot af því besta úr þessum ferðum

Myndir